Viðarhúsgögn

    Húsgögn úr viði eru alltaf einstök enda er viður náttúruafurð. Árhringir og kvistir eru einkennismerki viðarins og engin tvö viðarhúsgögn eru nákvæmlega eins. Hann breytist stöðugt og litir og form húsgagnsins tekur breytingum eftir því sem árin líða.

    Margar viðartegundir taka miklum litaskiptum í upphafi. Leyfið því öllu yfirborði að vera óhulið fyrstu mánuðina og forðist að för myndist eftir vasa og skrautmuni. Munið að því sterkara sem sem sólin skín á húsgagnið því hraðar tekur það breytingum á lit. Vilji maður minnka litbreytingar viðarins er hægt að skýla húsgagninu betur fyrir sól og einnig fyrir rakabreytingum.

    Vatn ætti að nota í sem minnstum mæli. Þurrkið strax af vökva sem kemst í snertingu við viðinn. Sjáist á viðnum eftir vökva má nota vel uppundinn klút til afþurrkunar. Járn og eik má ekki liggja saman. Járnið hefur þau áhrif á eikina að það skilur eftir sig svarta bletti í viðnum.

    Gegnheilt timbur getur tekið breytingum við breytingar á rakastigi. Það þýðir að t.d. borðplötur geta orðið hrjúfari eða bognað og í einstaka beyki- og furuviði geta myndast spennuglufur eða smá rifur milli árhringja. Það hefur ekki áhrif á endingu húsgagnsins og er eðlilegt.

    Vel ætti að lofta um gegnheilan við. Hyljið því aldrei gegnheil viðarhúsgögn með loftþéttu efni eins og plastfilmu eða vaxdúk meir en 12 stundir í senn. Sé loftun ekki nægileg geta komið sprungur í viðinn. Þetta er sérstaklega algengt með gegnheilt beyki. Venjulegur þurrkaður viður er ætlaður til að standa í híbýlum með rakastig á bilinu 30-60%. Rakastig er mælt með rakamæli.

    Viðarhúsgögn ættu ekki að geymast í rými þar sem miklar sveiflur eru á rakastigi því viðurinn stillir sig eftir umhverfinu og skarpar breytingar geta eyðilagt hann. Forðist því óupphituð rými s.s. í kjöllurum, útihúsum, á háalofti og þess háttar stöðum. Verjið við fyrir hita frá eldstæðum, ofnum o. þ.h. og notið aldrei húsgögn, ætluð til innanhússnotkunar, úti í garði eða á verönd.

    Stólfætur geta skilið eftir för á gólfteppi séu þeir rakir. Munið eftir þessu t.d. þegar teppi er hreinsað.


    Ómeðhöndlaður og sápuþveginn viður

    Þurrka skal af með hreinum, þurrum bómullarklút. Óhreinindi má hreinsa með sápuupplausn sem samanstendur af 1/4dl sápuspænis blandað saman við 1 ltr af heitu vatni. Látið blönduna kólna áður en þið notið hana. Notið aldrei brúnsápu.

    Sitji sápuleifar eftir ætti að þrífa þær strax með þurrum hreinum klút. Sápa hjálpar til við að verja viðinn. Gætið þess að spýtuendar drekki ekki í sig raka, þurrkið aðeins létt yfir. Bleyta má aldrei liggja á ómeðhöndluðum viði, þurrka þarf hana sem fyrst upp. Þurrka þarf af bakhliðum og undirfleti, því annars gæti platan undist. Lesið einnig hér ofar um viðarhúsgögn.

    Við vandlega hreinsun má nota mjúkan bursta – munið að þurrka strax á eftir yfir með þurrum klút. Fitubletti sem ekki hverfa burt við þessa meðferð má reyna að afmá með hreinsuðu bensíni. Þegar hreinsað er þannig geta æðar viðarins risið eilítið uppúr plötunni. Slípið þá létt yfir flötinn með sandpappír nr. 220. Notið ekki stálull (hætta á ryðblettum).

    Af húsgögnum úr ómeðhöndluðum viði eru það einungis tekkhúsgögn sem þola að vera utandyra. Viðurinn fær silfurgráa slikju með aldrinum. Aðrar viðartegundir þarf að meðhöndla með viðarolíu eða annarri viðarvörn til að þola veru utandyra. Viðarolía skýrir lit á tekki. Eigi að meðhöndla eða bera á útihúsgögn úr timbri ætti að gera það áður en þau eru tekin í notkun. Eftir það þarf að hreinsa þau og bera á þau á hverju ári.


    Vaxborinn viður


    Þurrka skal af með þurrum klút, aldrei rökum. Ef hellist á borðið þarf að þurrka það strax upp. Bletti má aðeins reyna að hreinsa á meðan yfirflöturinn er þurr. Við vandlega hreinsun má nota míneralska terpentínu – munið að þurrka vel yfir á eftir. Gott er að slípa viðinn langsum eftir æðum viðarins með sandpappír nr. 220. Að því loknu ætti að bera þunnt lag af húsgagnavaxi fyrir viðarhúsgögn á yfirborðið. Leitið ráðgjafar hjá ILVA og fylgið leiðbeiningum.


    Lakkaður viður

    Þurrkið af með hreinum þurrum klúti, eða klúti sem vættur hefur verið í hreinu vatni og er vel undinn. Athugið að sum eldri húsgögn svo og húsgögn í gömlum stíl með glansáferð þola ekki neinn raka. Spyrjið ráða hjá ILVA.

    Á flestar gerðir lakks má nota milda sápu eða hreingerningarlög. Sé yfirborð orðið matt má nota gott húsgagnabón. Fylgið alltaf leiðarvísi efnanna.

    Á lakkaðan við má ekki nota efni sem innihalda sílikon. Ef slípa þarf lakkaða fleti ætti ætíð að fá fagmann til slíks.


    Olíuborinn viður

    Notið hreinan þurran klút eða klút sem hefur verið vel uppundinn úr mildu hreinu sápuvatni. Sé notaður rakur klútur þarf að þurrka með hreinum þurrum klúti í kjölfarið. Verði yfirborðið skýjað eða matt þarf að endurnýja olíulagið með þeirri olíu sem hentar hverri viðargerð (tekkolíu, palisanderolíu o.s.frv). Þá mætti hugsanlega einnig nota olíublöndu sem samanstendur af 1 hluta vaselínolíu og 2 hlutum af míneralskri terpentínu.

    Umframolíu má fjarlægja með míneralskri terpentínu. Eftir það má bera á ný þunnt lag af olíu. Fylgið leiðbeiningum. Einnig má slípa létt yfir yfirborðið eftir æðum viðarins til að slétta úr ójöfnum. Notið blautslípipappír nr.320.

    Athugið að sjálfsíkveikjuhætta er af blautum olíuklútum. Gangið frá þeim í loftþétta dós eða vætið með vatni og fleygið eftir notkun.


    Lútuð húsgögn

    Nota þarf sérstök efni til meðhöndlunar á lútuðum húsgögnum. Spyrjið ILVA og fylgið leiðbeiningum. Sé meðhöndlun ekki sinnt sem skyldi getur það valið ofþurrki í viðnum sem leiðir af sér sprungur, rispur og í versta falli sveigju í yfirborði.